Solid Clouds gefur út viðbót við leikinn Starborne Frontiers
11/13/2024
Starborne Frontiers hefur verið í stöðugri þróun frá því að leikurinn hóf útgáfuferli sitt í febrúar 2023. Solid Clouds hefur núna gefið út fyrstu viðbótina (e. expansion) við Starborne Frontiers sem ber heitið Imperium. Í þessari viðbót líta fjögur stór leikkerfi dagsins ljós sem eru leiðtogakerfi (e. Squad Leaders), iðnaðarkerfi (e. Crafting), stríðandi fylkingar (e. Factions operations) og boðberar (e. Dispatch).
Til þess að spilarar haldist sem lengst í Starborne Frontiers þurfa þeir stöðugt að setja sér ný markmið til að vinna að innan leiksins. Imperium viðbótinni er ætlað að styrkja markmiðasetningu leikmanna í spilamennsku frá degi 30 til 180 og þannig auka tekjur leiksins. Markmið Solid Clouds er að auglýsingakostnaður skili sér til baka í formi tekna á sex mánuðum (Return On Ad Spend, ROAS).
“Með stöðugri þróun leiksins hafa innri mælikvarðar hans eins og ROAS styrkst og tekjur hafa aukist en í október fóru þær í fyrsta skipti yfir 100 þúsund Bandaríkjadali. Það tók teymi félagsins yfir þrjá mánuði að framleiða viðbótina og það er ánægjulegt að geta kynnt hana fyrir spilurum okkar”, segir Stefán Gunnarsson forstjóri Solid Clouds.